Giftingar- og trúlofunarhringar: reglur og hefðir

Margir kannast vafalaust við að talað sé um ákveðnar hefðir (og jafnvel reglur) um hvernig haga skuli framkvæmd bónorðs með tilliti til þess hvernig hring á að velja, og hvernig eigi að bera hann á fingri sér. Vissulega hafa myndast ýmsar hefðir í kringum þessa einstöku hringa, en ekki er hægt að segja að ein hefð sé réttmætari en önnur. Mestu máli skiptir að finna útfærslu sem hentar báðum aðilum best.

í þessari færslu ætlum við að fara yfir helstu hefðirnar sem hafa myndast og jafnvel eyða misskilningi um einstaka þætti þeirra. Hefðirnar eru margskonar, bæði hvað varðar form hringanna og hvar á líkamanum þeir eru bornir, en mestu máli skiptir að vita og skilja hvað hringarnir tákna.

Trúlofunarhringar eru fyrst og fremst tákn um loforð. Þegar við setjum upp trúlofunarhring erum við að lofa því að giftast maka okkar einn daginn. Giftingarhringar tákna eilífa ást og takmarkalausa skuldbindingu. Þegar við setjum upp giftingarhring erum við að innsigla loforð um að elska maka okkar og vera þeim trúir alla ævi.

Á ég að velja demantshring fyrir bónorð?

Það er vinsælt atriði í rómantískum bíómyndum að sjá einstakling krjúpa á kné og biðja um hönd annarrar, haldandi á stórum demantshring. Í þau skiptið sem bónorðinu er játað er síðan algengt að einungis annar aðilinn beri trúlofunarhring, en að báðir setji upp giftingarhringa á brúðkaupsdaginn.

Þessi útfærsla er góð og gild, og hér eru dæmi um demantshringa sem gætu hentað við þessar aðstæður. Sum pör kjósa hinsvegar að báðir aðilar gangi með trúlofunarhringa í aðdraganda brúðkaups. Í mörgum tilfellum eru þessir hringar síðan pússaðir upp og gerðir sem nýir fyrir brúðkaupsdaginn, en aðrir kjósa að bæta við giftingarhringum sem settir er upp á brúðkaupsdaginn, samhliða trúlofunarhringunum.

Þurfa hringarnir að vera eins?

Það er algeng trú fólks að giftingarhringarnir þurfi að líta eins út, enda var slíkt ríkjandi áður fyrr. Eitt sinn tíðkaðist meira að segja að smíða giftingarhringana þannig að þeir mynduðu eina heild þegar þeir væru settir hlið við hlið, svolítið eins og tvö púsl sem passa saman.

Hér á landi tíðkaðist lengi vel meðal gullsmiða að selja giftingarhringa í pörum. Við ákváðum fyrir mörgum árum að breyta út af vananum og tókum upp á því að selja staka giftingarhringa. Ástæðan er einföld: Við erum jafn ólík og við erum mörg. Fíngerðar hendur bera t.d. 3mm bauga vel, en stórgerðum höndum gæti hentað betur að vera með breiðari bauga, 5mm eða 6mm.

Áferð hringanna þarf ekki einu sinni að vera eins. Algengt er að giftingarhringar séu með sléttri glansáferð, en slíkur hringur hentar mögulega ekki aðila sem starfar við þungavinnu og/eða meðhöndlar gróf efni sem geta auðveldlega rispað hringa.

Á að áletra inn í hringana?

Hvað varðar áletranir inn í hringana, þá er algengt að brúðhjón láti áletra brúðkaupsdagsetningu eða ástarjátningar. En það tíðkast líka að láta áletra einhverskonar einkahúmor eða gælunöfn brúðhjóna í hringana. Þegar kemur að áletrunum er um að gera að nota hugmyndaflugið og finna eitthvað persónulegt sem vekur hlýja tilfinningu hjá þeim sem hringinn ber.

Á hvaða fingri á hringurinn að vera?

Algengt er að sjá trúlofunar- og giftingarhringa á baugfingri vinstri handar. Rekja má þá hefð til forn-Egypta sem trúðu því að í vinstri baugfingri væri „ástar-æðin“ (Vena Amoris), æð sem gengi frá baugfingri alla leið að hjartanu. Vísindin hafa þó sýnt fram á að enga slíka æð er að finna í líkama okkar, eða öllu heldur eina æð umfram allar aðrar sem gera það.

Í dag er algengt að fólk velji „hringa-fingur“ út frá hvort viðkomandi er hægri- eða vinstrihentur, og velja þá ekki ráðandi höndina, heldur hina. Það er meira að segja þannig að margir kjósa að ganga með giftingarhringinn sinn á fallegri keðju um hálsinn.

Mikilvægast er að hafa í huga að form hringanna, áferð þeirra eða staðsetning hefur engin áhrif á táknræna merkingu þeirra um eilífa ást. Engin ofangreindra hefða er réttmætari en önnur.

Farsælasta leiðin er einfaldlega að hver og einn finni út úr því hvað þeim hentar best.