Giftingar- og trúlofunarhringar: karöt eða caröt?

Það er algengur misskilningur að „Karat“ og „Carat“ séu samheiti, eða íslenskur og enskur ritháttur sama orðsins. Svo er hinsvegar ekki, því hér eru á ferðinni tvö hugtök sem hafa mjög ólíka merkingu.

Þegar talað er um „karat“ eða „karöt“ er átt við hreinleikastuðul gullblöndu, eða öllu heldur hversu hátt hlutfall gullblöndunnar er hreint gull. Hreint gull er 24 karöt, en í t.d. 18 karata gulli eru 18 hlutar af 24 hreint gull. Að sama skapi eru 14 hlutar af 24 hreint gull þegar talað er um 14 karata gull. Aðrir hlutar í þessum gullblöndum eru eðalmálmar sem er blandað við gullið til að t.d. auka hörku gullsins og hafa áhrif á lit þess.

Hugtakið „Carat“ er notað um þyngd (og stærð) demanta. Hér á landi er reyndar algengt að nota hugtakið „punktar“ í staðinn „carat“, en 100 punktar jafngilda einu carati. Það er því þannig að þegar við tölum um t.d. „10 punkta demantshring“ er einnig hægt að segja „0,1 carata demantshringur“.