Giftingar- og trúlofunarhringar: fróðleikur um gull

Til eru margskonar tegundir af gulli. Flestir kannast við skilgreiningarnar hvítagull, rósagull, og gulagull (sem í daglegu tali er einfaldlega kallað gull), en þessar skilgreiningar eru skírskotun í litinn á gullinu.Hinsvegar er mikilvægt að skoða aðra skilgreiningu gullskartgipa, en það er fjöldi karata.

Oft er talað um 24 karata gull sem „besta gullið“. Að vissu leyti er það rétt, því það sem einkennir 24 karata gull er að í því eru engir aðrir málmar eða önnur íblöndunarefni. Slíkt gull er kallað „hreint gull“.

Hversvegna er öðrum efnum blandað við gull?

Gull er í eðli sínu mjúkur málmur. Skartgripir eru yfirleitt nokkuð fíngerðir og ef hreint gull er notað í smíðina verður skartgripurinn mjög viðkvæmur fyrir ytra álagi. Það er þessi viðkvæmni málmsins sem gerir það að verkum að 24 karata gull er sjaldan notað í smíði fíngerðra skartgripa og alls ekki í smíði á festingum fyrir eðalsteina.

Með því að blanda öðrum eðalmálmum og efnum við gullið getum við haft áhrif á hörku málmsins og litbrigði. Hinsvegar er það svo að um leið og einhverju er blandað við gullið, þá minnkar karatafjöldi þess og við byrjum að tala um gullblöndur.

Þegar við tölum um 18 karata gull, 14 karata gull eða 9 karata gull er verið að vísa til hversu mikið magn af hreinu gulli er í viðkomandi hlut. 18 karata gullblanda hefur að geyma 750 hluta af hreinu gulli á móti 250 af öðrum eðalmálmum, en í 14 karata gullblöndu eru 585 hlutar hreint gull.

Algengast er að gullsmiðir noti 14 eða 18 karata gull við smíði sína. Af þessum tveimur blöndum er algengara að notast sé við 14 karata gull og er ástæðan sú að 14 karata gull er talið hafa besta jafnvægið þegar kemur af lit og hörku. Við notum einmitt 14 karata gull í okkar smíði, bæði hvað varðar gulagull og hvítagull.

Hvernig veit ég úr hvaða málmi skartgripurinn er?

Venjan er sú að gullsmiðir stimpli upplýsingar um málmblöndu viðkomandi skartgrips á lítt áberandi stað á gripnum. Á hringum er þessi stimpill því vanalega á innanverðum hringnum. Ef við tökum sem dæmi 14 karata gullhring, þá gæti hann verið stimplaður með annaðhvort „14k“ eða „585“, sbr. útskýringuna hér á undan um að í 14 karata gulli séu 585 hlutar af 1.000 hlutum hreint gull.

Hafa ber þó í huga að stundum gleymist að stimpla skartgripi að lokinni smíði. Einnig getur stimpill afmást með tímanum, einkum ef gripurinn hefur þolað álag um tíma. Þess vegna getur vel verið að skartgipir séu sannarlega smíðaðir úr gulli þó enginn stimpill finnist.