Giftingar- og trúlofunarhringar: fróðleikur um demanta
Hér erum við komin að þætti sem er ekki allur þar sem hann er séður. Frægasta mýtan er sennilega sú sem á uppruna sinn í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en þegar einhver flaggar nýjum trúlofunarhring þá fylgir iðullega spurningin "Hve mörg caröt er hann?". Með þessu mætti draga þá ályktun að gæði demantsins ákvarðist eingöngu af caratafjölda hans, en svo er alls ekki.
Caröt demanta segja til um þyngd þeirra (og þar með stærð), en það er allt og sumt. Það eru einkum þrír þættir til viðbótar sem segja til um gæði demanta, og þar með verðmæti, en þeir eru litbrigði, hreinleiki og skurður. Á ensku er oft talað um „the four C‘s“ þegar lýsa á gæðum demanta (Carat, Color, Clarity and Cut).
Hér á landi er þyngd demanta iðullega talin í punktum frekar en carötum. Ástæðan fyrir því er sú að gullsmiðir hér á landi nota í flestum tilfellum demanta sem skora hátt þegar kemur að hreinleika, litbrigðum og skurði. Þegar slíkir demantar eru farnir að vigta í carötum hleypur verð þeirra á milljónum króna. Vissulega eru demantar af þessari stærð notaðir í skartgripasmíði hér á landi, en algengara er að notaðar séu smærri stærðir.
Umbreytingin frá carati yfir í punkta er fremur einföld en 1 carat jafngildir 100 punktum. Þannig að þegar gullsmiðir tala um 10 punkta demant, þá er hann 0,1 carat.
Litbrigði
Þegar litbrigði demanta eru metin skora þeir hærra eftir því sem það er „minni“ litur er í þeim. Það þýðir að demantar sem eru algjörlega litlausir lenda í hæstu gæðaflokkunum.
Í grunninn fá demantar bókstafaflokkun sem segir til um litbrigðin. Steinar í hæsta gæðaflokki fá stafinn D á meðan lægsti flokkurinn er Z. Bókstöfunum á þessu bili er síðan skipt upp í nokkra yfirflokka, eftir því hve mikilla litbrigða gætir.
- Litlausir demantar (D, E, F)
- Nánast litlausir (G, H, I, J)
- Föllitaðir (K, L, M)
- Mjög lítill litur (N-R)
- Lítill litur (S-Z)
Til viðbótar þessu er algengt að notuð séu „gömul heiti“ demanta, og á það sérstaklega við um þegar fjallað er um demanta hæstu gæðaflokkunum. Við hjá Jens notum til dæmis í flestum tilfellum upprunalega heiti litbrigðaflokkanna þegar við skrifum demantalýsingarnar okkar. Við grípum þó stundum til bókstafaflokkunarinnar ef um er að að ræða skartgrip sem hefur marga demanta sem eru ekki í sama litbrigðaflokki. Þess vegna sérðu okkur stundum skrifa „TW“ þegar um er að ræða demant í litbrigðaflokki G, en „G-H“ þegar um er að ræða grip með mörgum demöntum sem eru ýmist í litbrigðaflokkunum G (Top Wesselton) eða H (Wesselton).
Hreinleiki
Demantar eru náttúrusteinar og þar af leiðandi er ekki hægt að ganga að því vísu að þeir séu lýtalausir. Raunar er það svo að lýtalausir demantar eru afskaplega sjaldgæfir. Ef óhreinindi í demantinum sjást auðveldlega lendir hann í lágum hreinleikaflokki. Hann lendir hinsvegar í háum hreinleikaflokki ef færir demantasérfræðingar eiga erfitt með að sjá óhreinindin þegar demanturinn er skoðaður í smásjá í tífaldri stækkun. Lýtalausir demantar raða sér síðan í efsta hreinleikaflokkin, enda eru þeir án allra óhreininda.
Hreinleikaflokkun demanta er eftirfarandi:
-
FL (Flawless)
Lýtalausir demantar.
-
VVS1 / VVS2 (Very Very Slightly Included)
Demantar í þessum flokki hafa vissulega óhreinindi en þau eru ósjáanleg með berum augum. Raunar er það svo að aðeins færir sérfræðingar gætu mögulega séð óhreindi í slíkum demöntum þegar þeir eru skoðaðir í smásjá í tífaldri stækkun. Flokkun 1 og 2 ræðst af því hvaðan óhreindin eru sýnileg við umrædda stækkun. Ef þau sjást ofan frá fer demanturinn í flokk 2 en ef þau eru bara sjáanleg neðan frá fer demanturinn í flokk 1.
-
VS1 / VS2 (Very Slightly Included)
Demantar í þessum flokki hafa óhreinindi sem eru sýnilegir við tífalda stækkun, en það þarf að hafa svolítið fyrir því að sjá þá í slíkri stækkun. Til að komast í þennan hreinleikaflokk þarf að vera hægt að rýna í demantinn í tífaldri stærð í a.m.k. 10 sekúndur áður en hægt er að segja með vissu að það séu óhreinindi í honum.
- SI1 / SI2 (Slightly Included)
Óhreinindi sjást auðveldlega við tífalda stækkun í smásjá.
- I1 / I2 / I3 (Included)
Óhreindini sjást augljóslega með berum augum.
Skurður
Hvað varðar skurð demanta sem notaðir eru í skartgripi, þá er langalgengast að notaðir séu demantar með hringlaga skurði sem kallast „brillíant“. Vissulega eru aðrir skurðir notaðir, en það sjaldgæfara, og þá einna helst þegar um er að ræða sérpantanir, a.m.k. í okkar tilfelli.
Samantekt
Nú erum við búin að fara yfir það helsta sem skiptir máli við val á demöntum, og ættu ofangreindar upplýsingar að einfalda þér leitina að rétta demantsskartgripnum.
Þegar þú ert að kynna þér úrvalið á markaðnum er gott að skoða sérstaklega ákveðna „óvenjulega orðarunu“ í vörulýsingu eða heiti skartgripsins. Hér er dæmi um slíka orðarunu:
„20 punkta TW VVS1 demantshringur“
Þessi stutta orðaruna segir nefnilega heilmikið um demantinn sem um ræðir. Út frá þessu sjáum við að demanturinn er 0,2 caröt að stærð, að demanturinn sé „nánast litlaus“ (næstefsti gæðaflokkurinn) og að óhreinindi eru ekki sjáanleg með berum auguml, og aðeins á færi þjálfaðra sérfræðinga að koma auga á galla við tífalda stækkun.
Orðarunan getur verið rituð á ýmsan máta eftir því hverskonar skartgrip er verið að lýsa, en hér eru nokkur dæmi um vörulýsingar hjá okkur, og hlekkur inná viðkomandi skartgrip.
- „Eyrnalokkarnir eru úr 14 karata gulli með samtals 0,40 ct./40 punkta demöntum (2x20p) í gæðaflokki TW VS1“ (https://www.jens.is/products/de-140-g-40p)
- „Hringurinn er smíðaður úr 14 karata hvítagulli með fimm demöntum sem eru samtals 0,25 ct/25 punktar í TW VS1 gæðum“ (https://www.jens.is/collections/demantsskartgripir/products/dr-55-h)
- „Lokkarnir eru handsmíðaðir úr 14 karata gulli með tveimur 5 punkta demöntum í TW VVS1 gæðum“ (https://www.jens.is/collections/demantsskartgripir/products/je-615-g-de-xs)