Giftingar- og trúlofunarhringar: fróðleikur um demanta
Það eru einkum fjórir þættir sem hafa áhrif á ásýnd, gæði og verð demanta. Það eru caröt (eða punktar), litbrigði, hreinleiki og skurður. Á ensku er oft talað um „the four C‘s“ (Carat, Color, Clarity and Cut).
Caröt / punktar
Caröt demanta segja til um þyngd þeirra (og þar með stærð). Hér á landi er þyngd demanta iðullega talin í punktum frekar en carötum. Ástæðan fyrir því er sú að gullsmiðir hér á landi nota í flestum tilfellum demanta sem skora hátt þegar kemur að hreinleika, litbrigðum og skurði. Þegar slíkir demantar eru farnir að vigta í carötum hleypur verð þeirra á milljónum króna. Vissulega eru demantar af þessari stærð notaðir í skartgripasmíði hér á landi, en algengara er að notaðar séu smærri stærðir.
Umbreytingin frá carati yfir í punkta er fremur einföld en 1 carat jafngildir 100 punktum. Þannig að þegar gullsmiðir tala um 10 punkta demant, þá er hann 0,1 carat.
Litbrigði
Því hvítari sem demantur er, því verðmætari er hann. Gæðin fara því lækkandi eftir því sem meiri litur er í demantinum.
Litbrigði demanta eru stundum skilgreind með bókstafaflokkun, skala frá D til Z þar sem D er hæsti gæðaflokkur og Z sá lakasti. Því hvítari (eða litlausari) sem demantur er, því verðmætari þykir hann. Til eru nokkrir flokkar hvítra demanta, en eftir því sem lengra líður á stafrófið fer gulur litur að vera sífellt meira áberandi.
Þó bókstafaflokkunin sé víða notuð er algengt að gullsmiðir notist við upprunalegu heiti demantalitbrigða. Það er aðferðafræðin sem við beitum en í þessari töflu getur þú séð hvaða bókstafaflokkar tilheyra hvaða heiti.
- Jager / River - D, E - blá hvítur
- Top Wesselton - F, G - fín hvítur
- Wesselton - H - hvítur
- Top Crystal / Crystal - I, J - létt tónaður hvítur
- Aðrir flokkar þar sem hver bókstafur felur í sér sífellt gul-leitari tón (K - Z)
Hreinleiki
Því hreinni sem demantur er, því skærar skín hann og því verðmætari telst hann. Lýtalausir demantar eru afar sjaldgæfir og eru reyndar sjaldan notaðir í skartgripasmíði þar sem þeir eru frekar keyptir til fjárfestingar.
Áður en við fjöllum sérstaklega um aðra gæðaflokka, þá sem helst eru notaðir við smíði skartgripa, er rétt að útskýra hvernig demöntum er raðað í hreinleikaflokka.
Í stuttu máli fer hreinleikaflokkunin eftir því hve erfitt eða auðvelt er að greina óhreinindi. Ef færir demantasérfræðingar eiga erfitt með að greina óhreinindi við tífalda stækkun í smásjá, þá lenda demantar í háum gæðaflokki. Ef óhreinindin eru slík að auðvelt sé að greina þau við tífalda stækkun eða jafnvel með berum augum, þá enda demantarnir í lágum gæðaflokki.
Í þessari töflu getur þú séð mismunandi hreinleikaflokka demanta, og hvað felst í hverjum þeirra.
Skurður
Langalgengast að notaðir séu demantar með hringlaga skurði sem kallast „brillíant“. Vissulega eru aðrir skurðir notaðir, en það sjaldgæfara, og þá einna helst þegar um er að ræða sérpantanir, a.m.k. í okkar tilfelli.
Samantekt
Nú erum við búin að fara yfir það helsta sem skiptir máli við val á demöntum, og ættu ofangreindar upplýsingar að einfalda þér leitina að rétta demantsskartgripnum.
Þegar þú ert að kynna þér úrvalið á markaðnum er gott að skoða sérstaklega ákveðna „óvenjulega orðarunu“ í vörulýsingu eða heiti skartgripsins. Hér er dæmi um slíka orðarunu:
„20 punkta TW VVS1 demantshringur“
Þessi stutta orðaruna segir nefnilega heilmikið um demantinn sem um ræðir. Út frá þessu sjáum við að demanturinn er 0,2 caröt að stærð, að demanturinn sé „nánast litlaus“ (Top Wesselton er næstbesti gæðaflokkurinn) og að óhreinindi séu það lítil að jafnvel færustu demantasérfræðingar eiga erfitt með að sjá óhreinindin við tífalda stækkun þegar demanturinn er skoðaður neðan frá.
Orðarunan getur verið rituð á ýmsan máta eftir því hverskonar skartgrip er verið að lýsa, en hér eru nokkur dæmi um vörulýsingar hjá okkur, og hlekkur inná viðkomandi skartgrip.
- „Eyrnalokkarnir eru úr 14 karata gulli með samtals 0,40 ct./40 punkta demöntum (2x20p) í gæðaflokki TW VS1“ (https://www.jens.is/products/de-140-g-40p)
- „Hringurinn er smíðaður úr 14 karata hvítagulli með fimm demöntum sem eru samtals 0,25 ct/25 punktar í TW VS1 gæðum“ (https://www.jens.is/collections/demantsskartgripir/products/dr-55-h)
- „Lokkarnir eru handsmíðaðir úr 14 karata gulli með tveimur 5 punkta demöntum í TW VVS1 gæðum“ (https://www.jens.is/collections/demantsskartgripir/products/je-615-g-de-xs)