Dagur einhleypra - dagurinn minn!

Dagur einhleypra - dagurinn minn!

Hvergi er að finna ótvíræða staðfestingu á því hver uppruni dags einhleypra er. Ein vinsæl kenning er að tilurð dagsins megi rekja til fjögurra kínverskra háskólanema sem voru þreyttir á að stöðugt væri verið að hampa fólki í samböndum við hin ýmsu tilefni. Þeim þótti tími til kominn að helga einhleypum einn dag ársins, og félögunum fannst að á þessum degi ættu einhleypir að fagna sjálfum sér og gera vel við sig með einhverjum hætti.

Dagsetningin 11. nóvember byggir að ákveðnu leyti á þessari sögu, en einnig á orðatiltæki, eða slangri, sem virðist vera notað um einhleypa í Kína. Slíkir einstaklingar eru stundum kallaðir "tómar greinar", en það er vegna þess að frá tómum greinum spretta engar nýjar greinar (eðli málsins samkvæmt) og þar með hvorki stækkar ættartréð né dafnar. Ef maður síðan pírir augun, hallar höfðinu til hliðar og dimmir ljósin má sjá að tölustafurinn "1" eru nauðalíkur tómri grein að forminu til.

Með hliðsjón af þessari myndlíkingu, formi tölunnar "1", og félaganna fjögurra hér á undan, var ákveðið að gera 11. nóvember (11.11) að degi einhleypra (eða svo segir a.m.k. ein kenningin).

Sumir telja uppruna þessa dags vera kaldhæðnislegan; að hann sé bara settur fram sem einhverskonar skopstæling á Valentínusardegi. Aðrir eru sannfærðir um að rekja megi uppruna dagsins til alþjóðlegra stórfyrirtækja, og að dagurinn sé lítið annað en "enn einn verslunardagurinn" sem fyrirtæki sköpuðu til að auka sölutekjur.

Ég hafði gaman af því að kynna mér þessar og fleiri sögur um uppruna dags einhleypra. En eftir stendur að mér finnst uppruni hans ekki skipta nokkru máli. Hver sem uppruninn er, þá breytir hann ekki þeirri staðreynd að dagur einhleypra færir okkur gríðarlega mikilvæg skilaboð, hvort sem við erum einhleyp eða í sambandi.

Flestir kannast sennilega við að þurfa stöðugt að forgangsraða málum í daglegu lífi sínu. Oft er það vinnan, fjölskyldan eða aðrar skyldur sem við höfum að gegna sem skipa sér fremst í forgangsröðina. Fyrir vikið er hætta á að við gleymum því sem er mikilvægast.

Hvernig eigum við að viðhalda krafti til að sinna þörfum annarra ef við vanrækjum eigin þarfir?

Dagur einhleypra minnir okkur á að við eigum að setja okkur sjálf í fyrsta sætið, jafnvel þó það sé ekki nema bara af og til. Þann 11. nóvember skulum við öll gera eitthvað sem gleður okkur. Borðum uppáhalds matinn okkar, gleymum stað og stund í heita pottinum og hækkum uppáhaldslagið okkar í botn. Hugsum fallega til okkar, segjum "ég elska þig" við okkur sjálf, og hrósum okkur fyrir allt það góða sem við höfum gert.

Setjum súrefnisgrímuna fyrst á okkur sjálf. Aðeins þannig viðhöldum við krafti til að hjálpa öðrum.

- Ívar Örn Indriðason,
  markaðsstjóri, eiginmaður, og uppspretta tveggja ört vaxandi greina

----------- 

Í tilefni af Singles Day 2023 bjóðum við 11% afslátt af gullskartgripum. Smelltu hér til að skoða skartgripina, og mundu að slá inn afsláttarkóðann SINGLESDAY23 áður en þú gengur frá kaupum.